Húðslit á meðgöngu – Undrakrem og olíur.

Síðan ég tilkynnti óléttuna á samfélagsmiðlum í vetur hef ég fengið sömu spurninguna aftur og aftur og aftur. “Hvað notar þú til að koma í veg fyrir slit?”

Þegar mér var svo litið á súper-teygða bumbuna í morgun ákvað ég að taka þessa spurningu bara fyrir hér á blogginu.

bumbfull

Ég ætla að taka það sérstaklega fram að ég er ekki húðlæknir, ekki snyrtifræðingur eða neitt slíkt, en ég veit eitt og annað um húðina eftir að hafa drukkið í mig allskyns fróðleik í mörg ár. Ég ætla þar af leiðandi bara að fara mjög gróflega í það hvað orsakar húðslit.

Slit geta myndast í húðinni af ýmsum ástæðum. Oftast eru þau gena- eða hormónatengd og teygjanleiki húðarinnar spilar þarna stórt hlutverk. Djúpt ofan í húðinni (leðurhúðinni) eru þræðir sem geta rifnað við mjög hraðan vöxt. Til dæmis eins og á meðgöngu, við hraða þyngdaraukningu eða vaxtarkippi.

Á meðgöngu fá um það bil 8 af hverjum 10 konum húðslit. Þetta er því hinn eðlilegasti hlutur og mér finnst ótrúlegt að mýturnar haldist endalaust á lofti!

Það er ekkert krem og engin olía að fara að koma í veg fyrir að þú slitnir á meðgöngu! Það skiptir engu máli hvort systir mömmu frænku þinnar notaði einhverja olíu og slitnaði ekki, en mágkona pabba vinkonu þinnar notaði hana ekki, en slitnaði samt. Í rauninni er stundum búið að ákveða fyrir þig langt fram í tímann hvort þú munir slitna eða ekki. Það að þú slitnir ekki þýðir ekki að kremið hafi virkað. Það þýðir einfaldlega að þú hefðir ekki slitnað. Það að þú slitnir þýðir ekki að þú hefðir átt að nota krem eða hafir notað vitlaust krem. Þú hefðir slitnað.

Sama hvað ykkur er sagt, þá er ekkert krem að fara að ganga inn í leðurhúðina og koma í veg fyrir slit. Við slitnum í raun ‘innan frá’ og besta leiðin til að mýkja húðina væri þá að innbyrða góðar olíur og hollan mat. Það er samt ekki skyndilausn og dugar ekki að gera eingöngu á meðgöngunni sjálfri, heldur eitthvað sem maður þyrfti að gera til lengri tíma.

Hins vegar finnst mér algjör snilld að smyrja á mig allskyns gúmmelaði á meðgöngunni, einfaldlega vegna þess að þegar bumban stækkar getur húðin orðið þurr og pirruð. Satanískur kláði gerir oft vart við sig í kjölfarið og hann er hægt að fyrirbyggja með því að nota góðar vörur á húðina og auðvitað drekka nóg af vatni.

Þetta er akkúrat tíminn til að dekra við húðina og reyna að láta sér líða vel. Ef þið eigið baðkar er frábært að skella góðri olíu í baðvatnið og/eða bera gott krem á húðina eftir bað. Ég er líka búin að uppgötva frábæra vöru frá Lush, en það er stykki sem notað er í sturtunni til að mýkja húðina. Varan bráðnar við hitann frá vatninu og maður þarf ekki að bera neitt á sig eftir sturtuna. Vörur sem innihalda til dæmis kakó- og shea butter eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér, en þessi innihaldsefni halda húðinni mjúkri í langan tíma. Þið þurfið ekki að splæsa í rándýrar vörur frekar en þið viljið. Ef einhverntíman er tilefni fyrir Body butter frá The Body Shop, þá er það núna.

bumba

Ég sé strax að ég á eftir að líta út eins og landakort eftir tvíburameðgönguna, en ég slitnaði bara í blálokin þegar ég gekk með Kötlu. Mér fannst það ótrúlega ‘svekkjandi’, en um leið skammaðist maður sín pínulítið fyrir að vera að spá í svona hlutum þegar maður fékk heilbrigt barn í staðinn. Ekki gera það! Þetta má auðvitað vera grautfúlt og allskonar. Þið þurfið ekkert að fá ykkur ‘You’re a goddamn tiger who earned her stripes’ tattú! En ég lofa að þetta verður betra.

Ég ætla að reyna að muna það sjálf þegar tvíburarnir koma í heiminn. Annars megið þið minna mig á það! 😉

xx