Ég lofaði uppskrift af þessu dýrindis bananabrauði sem ég bakaði í gær, en það er án sykurs og hveitis. Ég nota kókoshveiti mjög mikið í bakstur, en ég á það til að baka vandræði úr því. Ég fæ kannski allt í einu þá snjöllu hugmynd að baka muffins eða vöfflur, skelli afrakstrinum svo í andlitið á mér og mér líður eins og ég sé að kyngja blöndu af frauðplasti og sandi. Yfirleitt geri ég þau mistök að nota of lítið af eggjum á móti hveitinu, en það er nauðsynlegt að nota nóg af þeim vegna þess að hveitið er svo þungt. Ég styðst oft ekki við neinar uppskriftir og það kemur mér oft í klandur. En nóg um það hvað ég er mikill kjáni!
Ég hætti alfarið að nota hvítan sykur í bakstur í fyrrasumar og hef yfirleitt notað hunang, agavesýróp eða döðlur til að sæta kökur. Núna langaði mig hins vegar að sleppa því öllu og notaði stevíu í staðinn. Ég setti u.þ.b 15 dropa, því hverjir 6 dropar eiga að koma í stað teskeiðar af sykri. Í venjulegu bananabrauði á reyndar að vera alveg hálfur bolli af sykri, en mér finnst það algjör óþarfi. Það er eflaust hægt að nota meira eða minna af stevíu, en þetta var bara tilraun hjá mér sem heppnaðist ágætlega! Ég nota helst ekki mjólkurvörur, en ákvað að það væri ekki hægt að sleppa smjörinu í uppskriftinni. Mér finnst hvort sem er gjörsamlega tilgangslaust að baka bananabrauð ef ég ætla ekki að borða það með smjöri! (og osti! namm!) Í stað mjólkur notaði ég kókosmjólk.
EN hér er uppskriftin:
2 bananar
3/4 bolli kókoshveiti
5 egg
6 msk bráðið smjör
1 tsk matarsódi
dash af salti (mér finnst salt mjög næs, ég hef örugglega notað 3 dösh)
1/3 bolli kókosmjólk (eða einhver önnur mjólk)
15 dropar stevía (ég notaði með karamellubragði)
Öllu blandað vel saman í skál (ég nennti ekki að nota hrærivél, notaði bara sleif), sett í smurt mót og bakað á 190°c í 40 mín, eða þangað til gaffall kemur hreinn úr því. Ég þurfti að baka mitt í klst og 10 mín vegna þess að ofninn minn er vanhæfur. Það vantar bæði undirhita og blástur í hann.
Brauðið verður mjög mjúkt og satt að segja fannst mér auðveldara að borða það daginn eftir. Vonandi verðið þið jafn kát með það og ég!
bless kex
Birna Magg
Leave a Reply