Skyn Iceland!

Það eru komnar nokkrar vikur síðan ég fékk vörur frá Skyn Iceland að gjöf, en eins og þið vitið tek ég mér alltaf smá tíma í að prófa og pæla áður en ég opna á mér kjaftinn. Ég á erfitt með að finna húðvörur sem henta mér og veit að það eiga fleiri en ég lager af dóti sem hefur verið notað í 1-2 skipti. Ykkur finnst kannski skrýtið að ég haldi mig síðan ekki bara við vörur sem mér líkar við, en ég er algjör pervert og verð að prófa meira og meira og meira. Annars væri þetta blogg líka ekkert skemmtilegt! ‘Hæ! Í dag ætla ég að segja ykkur frá rakakreminu sem ég hef notað í 7 ár og sagt ykkur frá 48x áður’. Niii…

skyn

Eins og einhver ykkar vita, þá er ég með blandaða húð, ‘acne’ (hormónatengt að mestu, en fæ líka þessar klassísku stress/lífsstíls-bólur) og í þokkabót er húðin viðkvæm. Það er mikill roði í henni og hver bóla skilur eftir sig ljótt far og stundum djúpt ör. Þar hafið þið það! Ef þið tengið við eitthvað af þessu megið þið endilega halda áfram að lesa.

Karin hjá Nola.is leyfði mér að kíkja heimsókn í september og sagði mér aðeins frá Skyn Iceland vörunum. Sagan á bakvið þær er mjög skemmtileg (ég er algjör sökker fyrir svona sögum á bakvið vörur) og ég fékk strax góða tilfinningu fyrir þeim. Hún lét mig hafa nokkrar vörur til að prófa og ég hef notað þær meira og minna síðan.

Skyn Iceland vörurnar eru sérstaklega þróaðar fyrir ‘stressaða húð’. Það hljómar kannski óvenjulega, en áhrif stress geta komið fram á allskonar hátt í húðinni. Stofnandi Skyn Iceland heillaðist af íslenskri náttúru og innihaldsefnin eru að stórum hluta fengin héðan. Innihaldsefnin eru mjög fjölbreytt, en vörurnar hafa sameiginlegan grunn sem þau kalla ‘The Icelandic complex’. Ég ætla að segja ykkur í stuttu máli (sjáum hvernig það fer!) frá hverri og einni vöru sem ég hef verið að nota.

glacial face

Glacial face wash er andlitshreinsir sem róar, kælir og hreinsar vel. Ég tók strax eftir því hversu fersk húðin mín var eftir að ég notaði hann, tandurhrein, en samt ekki stíf. Innihaldsefnin eru af ýmsum toga (þari og víðir svo eitthvað sé nefnt), en þau geta komið í veg fyrir bólumyndun og roða. Þennan nota ég á hverjum degi og oft með andlitsbursta til að ná alveg ofan í svitaholurnar.

nordicskinpeel

Nordic skin peel er orðinn fastur liður í minni rútínu og verður það eflaust mikið lengur. Þetta eru djúphreinsandi skífur, stútfullar af allskonar gotteríi fyrir húðina. Ég er alveg viss um að ef bólurnar mínar væru ekki hormónatengdar, þá væri ég bólulaus út af þessum gaurum. Skífurnar innihalda til dæmis nornahersli og mjólkursýrur. Ég nota þær 4-5x í viku, en það má nota þær daglega ef húðin þolir það. Þegar maður er búinn a nota þær líður manni eins og maður hafi skroppið á snyrtistofu, án þess að hafa farið í skó.

the antidote

The ANTIDOTE cooling daily lotion er sérstaklega hannað fyrir húð eins og mína. Pirraða, stressaða og olíumikla. Þetta krem/gel er eitt það besta sem ég hef átt. Það hefur sérstaklega kælandi og róandi áhrif á húðina, kemur jafnvægi á olíuframleiðslu og dregur úr roða. Það inniheldur meðal annars þara, aloe vera og myntu. Besta tilfinning í heimi er að skella þessu á andlitið og labba síðan út, svo frískandi!

purecloudcream

Ég fékk líka að prófa annað rakakrem, Pure cloud cream. Þetta verður að teljast flippaðasta dagkrem sem ég hef átt. Áferðin á því er mjög sérstök, þetta er pínu eins og að pota í ský. Lyktin af því er rosalega góð! Það hentar mér mjög vel á þeim dögum sem ég fæ smá þurrk. Toggi notar það mikið (hann bað mig um að nota ‘Toggalicious’ eða ‘Tjömachine’, en ég ætla ekki að gera það), en hann er þurrari í húðinni heldur en ég. Það er ótrúlega þægilegt að nota þetta krem undir farða (Toggi gerir það reyndar ekki), það er mjög mýkjandi og gefur húðinni svona ‘plump’ tilfinningu. Inniheldur meðal annars möndluolíu og aloe vera.

oxygennightcream

Oxygen infusion night cream sér til þess að ég vakna með ‘rólega’ húð og mig langar alltaf helst að sleppa húðrútínunni minni á morgnana, því hún lítur svo vel út. Kremið er mjög rakagefandi og róandi. Í því eru líka innihaldsefni sem vinna gegn öldrunareinkennum húðarinnar.

arcticfacemist

Arctic face mist er rakasprey, stútfullt af vítamínum. Þetta sprey nota ég í óhóflegu magni. Ég nota það stundum sem extra skref á milli andlitshreinsunar og dagkrems eða yfir dagkremið. Mér finnst gott að nota það yfir farða, það gefur húðinni ferskara yfirbragð, sérstaklega ef maður hefur notað púður. En annars gríp ég bara í það hvenær sem er yfir daginn ef mér finnst að húðina vanti extra boost og raka. Ég er háð þessu!

purepore

Pure pore minimizer hálfgerður primer sem vinnur á olíumyndun. Hann mattar húðina, minnkar ásýnd stórra svitahola og vinnur um leið á vandamálinu. Margir af mínum uppáhalds primerum innihalda silikon, sem geta stíflað húðina og valdið bólum. Þessi hins vegar inniheldur nylon í staðinn og þar af leiðandi finnst mér ég geta notað hann oftar en aðra.

Ég get sagt fyrir mitt leyti að þessar vörur hafa haft mjög góð áhrif á húðina mína. Hún er fyrst og fremst rakameiri heldur en hún var og hefur fengið frískara yfirbragð. Það er meiri ljómi í henni, hún er ekki eins gráleit og áður. Ég fæ stóru, ljótu bólurnar mínar ennþá, en þessar týpísku eru að mestu hættar að koma. Þessar stóru elskur eru samt mjög fljótar að hverfa, en ég held að það sé aloe vera’inu(?!) í sumum vörunum að þakka að þær gróa fyrr. Þessi kælandi áhrif sem flestar vörurnar hafa á húðina eru ómissandi fyrir mig, þau slá á roða og kláða sem ég er annars að díla við.

Verandi manneskja sem á mjög fjölbreytt úrval af húðvörum, þá missi ég stundum áhugann á húðrútínunni (lúxusvandamál, óútskýranlegt!), en þessar vörur halda manni einhvernveginn við efnið. Ég held að það sé vegna þess að maður veit að innihaldsefnin eru að gera manni gott og svo er lyktin líka mikill plús. Ég lít orðið meira á húðrútínuna mína á kvöldin sem lúxus heldur en vesen.

Ég hlakka til að halda áfram að nota þessar vörur í bland við allt hitt sem ég á eftir að prófa! Þær eru einfaldlega of góðar til að leggja þær á hilluna.

Ég mæli með því að þið takið þetta test á Skyn Iceland síðunni til að sjá hvaða vörur henta ykkur, en vörurnar fást á Nola.is.

xx

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

Create a free website or blog at WordPress.com.

Up ↑

%d bloggers like this: