Þessi bloggpóstur er sennilega sá lengsti sem ég hef og mun nokkurn tímann skrifa, svo ég mæli með því að fólk fari á klósettið fyrst og nái sér jafnvel í snarl. Ég vil byrja á því að taka það fram að ég geri mér grein fyrir því að það er til fólk með margfalt erfiðari húð heldur en ég. Ég er ekki að reyna að næla mér í einhver vorkunnarstig og þið megið alveg hringja á vælubílinn, en ef reynsla mín getur hjálpað einhverjum eða opnað augu einhvers er ég sátt. Án þess að reyna að hljóma klisjukennd finnst mér oft þurfa að fletta ofan af glamúrnum sem fylgir farða. Photoshoppaðar skvísur framan á tímaritum hafa verið mikið í umræðunni, en mér finnst líka mikilvægt að fólk (ungar stelpur t.d.) átti sig á því hvað hægt er að gera með farða. Það þarf ekki alltaf að vera neikvæður hlutur, það er fyrst og fremst ágætt að fólk átti sig á því að það eru ekki allir með lýtalausa húð frá náttúrunnar hendi.
Það kom mér á óvart þegar ég byrjaði að selja snyrtivörur hversu stór hluti kvenna (og karla líka) er clueless hvað þetta varðar. Tökum dæmi:
Kona á miðjum aldri gengur inn í búð og segist ætla að versla sér farða. Hún segist vilja farða sem þekur vel, því hún er með nokkur (pííínulítil) háræðaslit í andlitinu. Ég bendi henni á farða sem ég held að muni henta henni og segist nota hann sjálf. Kona: “Þú þarft nú ekki að fela neitt. Það er ekkert að þinni húð. Þú ert svo ung”.
Ég: “Jú, ég er með rauð ör í kinnunum sem ég fel með þessum farða. Hann er bara það þekjandi og þau sjást ekki og áferðin á honum er mjög náttúruleg”.
Þessi kona er með bullandi minnimáttarkennd og gerir sér ekki grein fyrir því að í morgun baðaði ég mig upp úr hyljara, púðri, meiki, primer og öllu tilheyrandi, en geng bara ekki með skilti um hálsinn sem á stendur “Hæ, ég vaknaði ekki svona”. Ég er með 50x verri húð en konan, en hún hefur ekki hugmynd.
Annað dæmi er þegar kona vill dekkja á sér andlitið með fljótandi farða, en ég bendi henni á sólarpúður. Kona: “Ha nei ojj það er svo gervilegt. Verður maður ekki svona appelsínugulur?” Ég: “Nei. Önnur hver manneskja sem þú mætir hér frammi á gangi í Kringlunni er með sólarpúður. Þú bara áttar þig ekki á því, vegna þess að það er svo eðlilegt ef það er notað rétt”.
Svo er það konan sem kemur inn og biður um aðstoð við að finna farða, en eftir smá vangaveltur og sýnikennslu segist hún aldrei hafa notað farða og aldrei fundist hún þurfa að gera það. Hún ákvað bara í dag að það væri kannski best að kaupa farða, þar sem hún væri nú komin á vissan aldur. Þessi kona er með fullkomna húð, en veit ekki að flestar vinkonur hennar sem nota farða gera það vegna þess að þeim finnst þær þurfa að hylja eitthvað.
Síðast en ekki síst er það týpan sem kvartar yfir því að pían sem hafi farið heim með sér hafi verið svo ljót daginn eftir. Heldur þú í alvörunni að manneskjan sem var svo augljóslega með gerviaugnhár, silfurlitaðan augnskugga og Amy Winehouse eyeliner gæti ekki hugsanlega verið með meik og púður líka?
Það er ekkert skrítið að fólk velti því ekki fyrir sér fram og til baka hvað er í fésinu á næsta manni, það lítur svo eðlilega út að það sést ekki. Þegar ég var yngri átti ég það til að taka það inn á mig þegar fólk talaði um ‘meikdollur’, þó svo að ég vissi að það ætti við stelpur sem meikuðu sig með sólarpúðri, svæfu með maskarann sinn og bættu svo á hann daginn eftir. Ég vissi bara að ég væri örugglega með meira meik en þær.
Ég byrjaði að fá það sem kallað er á ensku ‘Cystic acne’ þegar ég var komin í framhaldsskóla. Allar bólur fyrir þann tíma eru gleymdar og grafnar (bólugrafnar, get it?), þó svo að þær hafi valdið mér töluverðu hugarangri á þeim tíma. Dramabarnið sem ég var átti það til að grenja úr sér augun, en ekkert miðað við það sem seinna varð. Þessar elskur sem ég byrjaði að fá um 16-17 ára voru eins og risavaxin eldfjöll sem tóku sér tíma í að gjósa (Heillandi lýsing… ég veit). Ég fékk aldrei margar í einu, en þær fæddust langt undir húðinni og héldu sig þar kannski í 2 vikur. Svo skildu þær eftir sig rauð, ýmist djúp eða upphleypt ör. Ég flakkaði á milli lyfja og getnaðarvarnarpilla sem áttu að laga þetta allt, en uppskar þyngdaraukningu, þunglyndi og allskonar hluti óskylda kanínum og regnbogum. Svona gekk þetta í nokkur ár og hvítu postulínskinnarnar á mér voru orðnar eldrauðar á litinn, vegna þess að örin runnu saman í eitt. Ég skildi ekki hvers vegna ég, 20 ára gömul pía sem hugsaði alltaf sjúklega vel um húðina á sér, átti þetta skilið. Ég pantaði ekki þessa Pepperoniveislu frá Dominos og átti þar af leiðandi ekki að þurfa að borga fyrir hana.
Upp úr tvítugu fór þetta að skána, ég hætti öllu lyfjastandi og fókusaði á að nota góðar húðvörur. Ég var löngu komin upp á lag með að hylja örin með farða og þetta pirraði mig í rauninni ekkert það mikið. Þegar ég varð síðan ólétt af Kötlu gerðu þessar gömlu vinkonur innrás og ákváðu að taka undir sig stærra svæði en áður. Alveg niður á bringu og upphandleggi. Ég hélt að ég væri orðin nógu fullorðin til að takast á við þær (kommon, alveg að verða mamma), en dramatíska 15 ára barnið í mér tjúllaðist og ég endaði á að fara til læknis að fá lyf sem gerði ekki rass í bala, rétt eins og ég hafði gert 10 árum áður.
Þegar barnið fæddist áttu bólurnar að hverfa, en aldeilis ekki, þessar stóru í fésinu voru komnar til að vera. Með hollara mataræði fækkaði þeim aðeins, en ég tók út mjólk, sykur og brauð (ólíkt afa sem fór á honum Rauð) í fyrravor og finn að ég er verri í húðinni þegar ég dett í óhollustu. Ég held að ég geti líka fullyrt að það besta sem ég hafi gert fyrir húðina á mér hafi var að minnka áfengisneyslu. Ég drekk örsjaldan áfengi, en vikuna eftir að ég geri það er ég öll grá og útsteypt í bólum, þrátt fyrir að húðin verði eins og harðfiskur vegna vökvataps. Það hlýtur að hafa eitthvað að segja um skaðsemi áfengis. Skál.
Nú er ég 27 ára og ennþá með unglingaveikina. Ég á mínar góðu og slæmu vikur, en síðan seinnipart sumars hefur húðin á mér markvisst verið að gefa skít í mig og skreyta mig með jólaljósum. Ég var verst á meðan við vorum í Evrópuferðinni okkar um daginn, en þá datt ég í smá sukk. Croissant með nutella og eplasafi í morgunmat virka eins og sterar fyrir þessar elskur. Ég er enn að ergja mig á þessu drasli, en ég sé samt ljósið handan við hornið. Um daginn bloggaði ég um franskar húðvörur og ágæti þeirra. Ég gat ekki verið þekkt fyrir annað en að kíkja í franskt apótek á meðan á dvöl minni þar stóð. Ég var búin að kynna mér hvaða vörur myndu henta minni húð best og ákvað að slá til.
Vörurnar sem ég keypti voru Bioderma Créaline hreinsivatn, La roche posay effalcar duo (serum/krem) og La roche posay serozinc (toner), en ég hef haldið áfram að hreinsa húðina með Neutragena visibly clear línunni.
Nú er ég búin að nota þessar vörur í 2-3 vikur og ég sé mikinn mun á mér. Ég hef aldrei átt neitt sem hefur borið árangur svona fljótt. Ég fæ jú ennþá eina og eina bólu, en þær eru ekki fastar undir húðinni á mér eins lengi og hverfa mjög hratt þegar þær eru komnar upp. Örin mín (sum 10 ára gömul og önnur nokkurra vikna) eru daufari og áferðin á húðinni virðist sléttari. Flestir sem glíma við svipuð vandamál átta sig fljótlega á því að þetta krefst þolinmæði og það eru ekki til töfralausnir fyrir alla. Ég hef gerst sek um það að hætta að nota vöru vegna þess að hún virkaði ekki eins og skyldi á nokkrum dögum, en aldrei datt mér í hug að ég myndi finna eitthvað sem virkaði fyrr en það ætti að gera.
Bioderma hreinsivatnið nota ég til að hreinsa af mér farðann. Það er svosem ekki að gera neitt sérstakt fyrir húðina, en það hentar öllum húðtýpum. Þetta nota ég bara með bómull á kvöldin, áður en ég hreinsa húðina með andlitssápu/-kremi. Það nær ÖLLUM farðanum af og ég skil vel hvers vegna þetta er eitt vinsælasta hreinsivatn í heiminum.
Serozinc tonerinn nota ég þegar ég er búin að hreinsa húðina, en hann er í spreyformi. Hann er rosalega frískandi, sefar húðina og vinnur gegn bólumyndun, kláða og roða. Effaclar duo(+) kremið er svo hinn snillingurinn. Ég nota það eins og serum, þ.e.a.s. á eftir toner og undan rakakremi. Á kvöldin nota ég það reyndar í stað næturkrems. Þetta krem hentar viðkvæmri húð afar vel og á að koma í veg fyrir bólumyndun og draga úr förum/koma í veg fyrir ör. Ég dreifi því vel yfir allt andlitið, en set extra á verstu svæðin.
Ég tók myndir af húðinni á mér í dag í þeim tilgangi að sýna fram á árangur ef hann verður meiri, en ég klikkaði á því að taka þær fyrir nokkrum vikum síðan. Eins og áður sagði er húðin á mér MJÖG góð í dag, svoleiðis að lýsingarnar hér ofar virka kannski ekki mjög sannfærandi. Þið afsakið myndgæðin, en ég hafði ekki mikinn áhuga á að sýna ykkur svitaholurnar mínar í HD. Áferðin á húðinni sést ekkert of vel á þessum myndum, en örin og förin sjást aðeins, t.d. sést í ættarmót af örum fyrir ofan fæðingarblettinn minn og annað hægra megin á hökunni.
Guð blessaði mig með baugum og æðaberum augnlokum eins og sést, en ég vona að þið getið horft framhjá því og einbeitt ykkur að bóluörunum mínum í þetta skiptið.
P.S. Það er mjög erfitt að brosa á myndum sem eiga að sýna hversu óheppinn í smettinu maður er! Hefði átt að setja upp svona sorgar- og vonleysissvip eins og maður sér oft á ‘fyrir’ myndum.
P.S. #2 Ég rakaði endana af augabrúnunum á mér í sumar til að breyta lögun þeirra og er augljóslega ekki búin að móta þær þarna, enda algjörlega farðalaus. Berskjölduð. Aumingja ég. Aumingja þið.
Bólukveðjur
xx
Birna
Elska Bioderma og Effaclar Duo – langar svooooo að prufa Serozinc!
LikeLike
Ég er farin að kvíða því þegar brúsinn klárast, því það er víst erfitt að verða sér úti um þetta. Hefurðu rekist á seozinc einhversstaðar á netinu?
LikeLike