Í dag ætla ég að segja ykkur frá appelsínugulu vörunum í Neutrogena visibly clear línunni. Línan skiptist eiginlega upp í nokkra flokka og ég ætla líka að fjalla um Pink grapefruit vörurnar á næstu dögum. Neutrogena vörurnar eru þróaðar af húðlæknum og vinsælar um allan heim.
Ég var svo heppin að fá að prófa alla línuna, en ef þið eruð búin að lesa bloggið mitt í einhvern tíma ættuð þið að vita að sumar af þeim notaði ég nú þegar dagsdaglega. Appelsínugula línan hentar fyrir blandaða, feita og óhreina húð sem fær bólur og fílapensla. Mér finnst frekar lítið talað um vörur fyrir fólk sem er með olíumikla/blandaða húð (Íslendingar eru að sjálfsögðu frekar þurrir!) og þar sem ég er alveg ágætis case sjálf ákvað ég að skella í eina svoleiðis færslu. Ef þið nennið að sitja og lesa næstu 4 klst, þá skuluð þið halda áfram.
Fyrst ætla ég að tala um þessa gaura, en þeir vinna á förum eftir bólur og óhreinindum. Þeir eru þróaðir með sérstakri Microclear tækni, sem á að vera fyrirbyggjandi, þ.e.a.s. ráðast á bóluna áður en hún kemur uppá yfirborðið.
2 in 1 wash & mask hef ég sagt ykkur frá áður, en hann á stóran sess í rútínunni minni. Þennan gaur uppgötvaði ég í Englandi þegar ég var 18 ára (hann er sem sagt búinn að vera í lífi mínu tvöfalt lengur en kærastinn minn!) og ég hef alltaf gripið eitt stykki með mér heim þegar ég er úti. Ég varð því mjög kát þegar hann fór að fást á Íslandi. Ég nota hann sem hreinsi reglulega og sem maska 1x-2x í viku, en maður hefur hann á í um 5 mínútur. Hann skilur húðina eftir tandurhreina og lyktin af honum er sega mega frískandi.
Gentle exfoliating wash prófaði ég líka fyrst fyrir mörgum árum síðan, líkaði mjög vel, en eiginlega gleymdi honum! Ég býð hann velkominn aftur í líf mitt. Ég er einlægur aðdáandi húðskrúbba og þar sem húðin mín er viðkvæm þolir hún hvöss korn ekki vel, en þessi eru passlega fín. Mér finnst húðin mín ekki offramleiða olíu í langan tíma eftir að ég nota þennan, en venjulega þyrfti ég að fara á Olís að tappa af.
Þessir bræður eiga að vinna á fílapenslum.
Blackhead eliminating lotion (andlitsvatnið) er ég búin að eiga 2svar áður og gæti ekki verið án þess. Ég nota það á eftir andlitshreinsi og það setur punktinn yfir i-ið. Það hreinsar allar restar og undirbýr húðina fyrir rakakrem. Húðin mín stíflast síður þegar ég er dugleg við að nota þetta.
P.S.Ég á svona 3 letidaga í mánuði, þegar ég nenni ekki að taka mega hreinsirútínu. Við erum að tala um þegar maður sofnar í sófanum yfir sjónvarpinu og hefur varla rænu á að tannbursta sig, en gerir það samt. Þá tek ég hreinsiklút og þríf allan farða af og fer svo með andlitsvatnið í bómullarskífu yfir eftir á. Húðin verður alveg tandurhrein og ef ég fer með aðra skífu yfir kemur ekkert í hana. Hreinsiklútar eru alls ekki málið þegar kemur að því að hreinsa húðina almennilega, en með þessu andlitsvatni fæ ég miklu minna samviskubit á letidögum 🙂 Ég nota það líka oft þegar ég vakna á morgnana og hef ekki tíma í andlitssápu og þess háttar.
Daily scrub er síðan hinn fílapenslabaninn. Hann ræðst á fílapenslana og fyrirbyggir fílapenslamyndun. Hann hreinsar djúpt ofan í húðina, án þess að pirra hana, enda má nota hann á hverjum degi. Kærastinn minn er búinn að vera að nota þennan, en hann er kokkur og í eldhúsinu eru óhreinindi fljót að safnast upp í húðinni, svoleiðis að það getur verið gott að skrúbba í sturtunni á kvöldin.
Að lokum er það olíulausa dúóið. Það er hannað til að fjarlægja umfram olíu sem getur stíflað húðina.
Ég sogast alltaf að öllum rakakremum sem heita ‘oil-free’ úti í búð og er þar af leiðandi búin að prófa kremið áður. Þetta er þriðja túpan mín og það hentaði mér best í fyrrasumar, þegar ég var ekki með vott af þurrki. Það gefur passlegan raka og stíflar ekki húðina. Eini gallinn er að það dreifist aðeins verr úr því en öðrum kremum, en það er vegna þess að formúlan er krem (ekki gel) og inniheldur auðvitað enga olíu. Maður verður bara að vera súper fljótur að dreifa! Lyktin er frískandi og kremið sefandi á pirraða húð eins og mína. Þetta notar kærastinn minn líka og hann er með blandaða húð. Lyktin af þessum vörum er algjörlega unisex!
Olíulausa hreinsigelið á heima í sturtunni (ég elska að hafa vörur með pumpu í sturtunni!) og er laust við sápu og alkóhól. Það inniheldur salicylic sýru, sem er öflug þegar kemur að því að vinna á bólumyndun. Mér finnst gelhreinsar oft gera húðina stífa, en þessi gerir það ekki. Þessi er sniðugur fyrir þá sem vilja hafa hlutina einfalda og skothelt að nota andlitsvatnið á eftir honum.
Ég vona að ég hafi komið þessu skýrt frá mér, en ég var sjálf forvitin um eiginleika hverrar og einnar vöru og hef verið að lesa mig til og prófa mig áfram með þær. Ég mæli hiklaust með þessum vörum fyrir fólk á öllum aldri sem er orðið leitt á olíuiðnaðinum og afleiðingum hans!
xx