Um búlimíu, beikon og fleira.

11266582_697904823688342_1065255309_n

Ég skil ekki hvernig ég komst hingað. Ég lofaði sjálfri mér fyrir löngu síðan að verða aldrei þessi klisjukennda bloggaratýpa sem skrifar um viðkvæm málefni til að fá samúð og athygli frá fólki. Ég átta mig núna á því að þörf fyrir athygli er kannski ekki ástæðan fyrir svona bloggskrifum.

Ég rakst á grein um daginn um ný baráttusamtök, Vonarstyrk. Þessi samtök eru stofnuð til að styðja við bakið á átröskunarsjúklingum og aðstandendum þeirra. Um leið hugsaði ég ‘Vá! Frábært. Löngu tímabært. Ég vildi að ég gæti hjálpað.’ og uppgötvaði þá að á internetinu ætti ég stóran lesenda- og fylgjendahóp, þar sem ungar stelpur eru í meirihluta. Mér finnst mér bera skylda til að segja eitthvað, sem gerir mig að þessari ‘klisjukenndu bloggaratýpu’. Ég ét orðin mín ofan í mig aftur krakkar. Það er ekkert klisjukennt við það að nota aðstöðu sína til að koma þörfu málefni á framfæri.

Einhverjir vita að ég barðist við átröskun (anorexíu og búlimíu) í mörg ár, aðrir ekki. Ég er á góðum stað í dag og búin að vera í nokkur ár. Ég hef ekki verið feimin við að tala um þetta eftir að ég komst á bataveg, en ég er heldur ekkert að segja fólki þetta í óspurðum fréttum. Þess vegna kemur þetta kannski sumum á óvart. Þessi bloggpóstur verður þá sennilega svolítið eins og að koma út úr skápnum. Hæ!

Ég veit ekki nákvæmlega hvenær þetta byrjaði, en ég var frekar ung þegar ég fékk útlitið á heilann. Ég meina… hverjum datt í hug að smella stórum rassi, breiðum mjöðmum, stuttum fótleggjum, litlu mitti og litlum brjóstum á sömu manneskjuna? Einhverntíman í 8.bekk man ég eftir að hafa heyrt tvær stelpur í bekknum tala um að ein bekkjarsystir okkar væri ‘orðin svo feit’ og það fékk mig til að hugsa, því við vorum svona frekar svipaðar. Ég efast um að þetta augnablik hafi triggerað átröskunina, en þetta er mér svo ferskt í minni, vegna þess að fram að þessu hafði mér fundist ég frekar eðlileg í vexti. Sem ég var.

Ég varð mjög snemma upptekin af tísku. Ég byrjaði að kaupa Vogue blöð þegar ég var 14 ára og hafði mikinn áhuga á fötum, förðun og hári. Fegurðarsamkeppnir fannst mér ótrúlega spennandi og módelkeppnir toppurinn á tilverunni. Ég gerði mér grein fyrir því að ég hafði ekki vöxt til að taka þátt í svona keppnum, en flottustu píurnar voru einfaldlega mjóar og mjó skyldi ég vera/verða. Það hlaut að vera eitthvað sem ég gat haft stjórn á.

Ég byrjaði á því að svelta mig. Eftir áramót í 8.bekk man ég að ég var farin að henda nestinu mínu í ruslið um leið og ég kom í skólann, eða segja mömmu að ég væri búin að pakka því ofan í tösku. Ég eignaðist nýjar vinkonur og fór að eyða miklum tíma heima hjá þeim. Ég man eftir að hafa reynt allskonar hluti. Heima hjá vinkonu minni sagðist ég ætla að borða þegar ég kæmi heim og þegar heim var komið sagðist ég hafa borðað heima hjá vinkonunni. Þetta gekk hins vegar ekki lengi, því auðvitað vildu foreldrar mínir að öll fjölskyldan væri saman í kvöldmatnum. Ég neyddist því til að kyngja matnum. Eftir kvöldmat ‘fór ég í sturtu’ og kastaði matnum upp. Tilhugsunin um 13 ára barn að kasta sjálfviljugt upp matnum sínum vekur með mér óhug í dag. Jafnvel ógleði.  Ef ég varð svöng fyrir svefninn hljóp ég á Olís og keypti mér ‘einakrónuhlaup’. Svona 20 stk max. Þau dugðu mér svo fram að næsta kvöldmat.

Á þessum tíma voru til stuðningssíður á netinu fyrir fólk með átraskanir. Ekki stuðningur til bata, heldur skiptust stelpur og strákar á ráðum til að kasta upp og svelta sig. Þessar ‘anamia’ síður voru sífellt tilkynntar og þeim lokað, en upp poppuðu aðrar í staðinn. Ég var ekki lengi að finna þær. Heima fékk ég úthlutað einhverjum X tíma á internetinu á dag (dial up krakkar mínir! kostaði moneys!) og fór sá tími að mestu leyti í að safna eins miklum upplýsingum og ég gat um átraskanir, á milli þess sem ég skoðaði ‘thinspo’, eða myndir af súper grönnum stelpum.

Í skólanum bergmálaði garnagaulið mitt í dönskutíma. Í íþróttum hafði ég litla sem enga orku. Það leið yfir mig á jólatónleikum í kirkjunni. Ástæðan var sú að ég hafði voða lítið borðað þá vikuna og svo var ég líka í ljótum bol. Ég hafði ekki haft tíma til að skipta og ákvað að vera bara í úlpunni inni. Svona var ég nú upptekin af útlitinu. Stuttu seinna leið yfir mig inni á baði heima. Ég raknaði við mér og sagði svo engum frá því.

Ég man ennþá eftir myndum á töflu á ganginum í skólanum. Myndirnar voru af anorexíusjúklingum og það var hægt að telja rifbeinin þeirra. Ég var viss um að ég væri ekki með anorexíu, því ég leit ekki svona út. Ekki nálægt því.

Fermingardagurinn kom. Allt skyldi vera fullkomið. Í dag er ég að plana brúðkaupið mitt og ég hef ekki næstum því jafn stórar áhyggjur og 13 ára ég hafði af því hvort ég yrði feit í kjólnum. Á fermingarmyndunum er ég bara krakki með núðluhandleggi í blúndukjól. Ég var aldrei feit.

Um sumarið eyddi ég það miklum tíma með fjölskyldunni minni að laumuspilið mitt gekk ekki eins vel og ég fór að borða meira. Næstu 2 árin þróaðist anorexían út í búlimíu eingöngu. Ég borðaði og hugsaði um að æla, en gerði það ekki eins oft. Ég léttist ekki á þessum tíma, sem gerði það að verkum að enginn sá að neitt væri að. Ég hugsaði samt sem áður alltaf eins. Ég fann fyrir þunglyndi í fyrsta skiptið 15 ára sem ég tengi að mestu leyti við átröskunina. Kvíðaraskanir fylgdu í kjölfarið. Mér fannst ég aldrei nógu góð. Aldrei nógu sæt. Aldrei nógu klár.

Ég byrjaði í framhaldsskóla og hélt áfram að kasta upp. Ég fann mér uppáhalds klósett þar og alles. Í busavikunni man ég að vinkonur mínar gengu á mig og spurðu hvort ég væri að láta sjálfa mig æla. ‘Eruð þið þroskaheftar?’ (blessunarlega nota ég þetta orð ekki lengur í þessum tilgangi) og svo var það ekkert meir.

Ég byrjaði að þjóna á veitingastað. Stundum hafði maður ekki tíma til þess að borða neitt annað en frönskuskammt. Hann endaði svo yfirleitt í klósettinu þar korteri seinna. Stelpan sem vann á vaktinni með mér var farin að rétta mér hárteygju þegar ég var búin að borða. Ég sagði fólki að mér yrði alltaf óglatt þegar ég væri búin að borða. Sem var satt. Ég þróaði þá hugsun með mér að maturinn ætti ekki að tolla niðri og líkaminn brást svona við. En það sem fólk vissi ekki var að mér fannst það bara mega næs! Þá var auðveldara fyrir mig að kasta upp. Stundum þurfti ég ekki einu sinni að nota puttana. Ég kúgaðist bara sjálfkrafa. Fólkið sem ég vann með vissi ekki að ég væri andlega veik, heldur hélt bara að ég væri líkamlega veik. Einhverjir sáu í gegnum mig, en ég sagði þeim pent að fokka sér.

Búlimían fylgdi mér hvert sem ég fór. Á milli landshorna og kærasta. Kærastar og vinir höfðu auðvitað mismikinn skilning á þessu og einu sinni var mér sagt að ‘þetta væri bara fokking heimska’. Ég tók það mjög nærri mér (þó svo að þetta hafi verið einhver twisted leið hjá viðkomandi til að hjálpa), því það síðasta sem ég vildi vera var heimsk. En svo tók átröskunin aftur völdin. Frekar vildi ég vera heimsk heldur en feit.

Ég lét fólk alltaf halda að ég væri á einhverskonar batavegi. Að ég myndi ekki vilja vera svona. Ég veit að ef ég hefði viljað einhverja hjálp hefði ég fengið hana fyrir hálft orð. Ég var með fullt af topp fólki í kringum mig. Ég á góða fjölskyldu, átti góða vini og kærasta. Mér var bara drullusama. Ég vildi enga hjálp.

Þessi lífsstíll hentaði mér misvel eftir því hvar ég vann. Það er ekkert spaug að þurfa að æla og vera eini starfsmaðurinn í búð á Laugaveginum yfir hásumar. Stundum varð ég bara að setja átröskunina á hold og þá sökkti ég mér alltaf í þunglyndi.

Ég tók allskonar tímabil og var rosalega ýkt í sumu sem ég gerði. Ef ég keypti mér kort í ræktina mætti ég þangað 2svar á dag og endaði svo máttlaus heima hjá mér eftir 200 magaæfingar í viðbót þar. Ég hætti samt fljótlega þessum ræktarstælum, enda fór ég að sjá vöðva. Vöðva vildi ég ekki sjá. Ég fór að labba úr vesturbænum í vinnuna niðri í Skeifu. Ég veit að það er ekkert hræðilega löng vegalengd, en ég gerði það svoleiðis að ég gæti fengið mér kaffi með mjólk samviskubitslaust þegar þangað yrði komið. Ókei samt líka smá af því að ég átti ekki fyrir strætó…!

2 árum áður en ég náði botninum byrjaði ég að vinna í mjög vinsælli fataverslun. Lífið mitt snerist allt í einu um það að passa í stærð 26 í Diesel gallabuxum. Fyrir manneskju sem er með mjaðmir sem smellpassa í stærð 28 er það næstum ómögulegt, en það komst voða lítið annað að. Stærstu áhyggjurnar mínar í dag eru fjárhagslegt öryggi, heilsa fólksins í kringum mig osfrv. Þarna var það einfaldlega hvort ég myndi einhverntíman passa í 26. Ég gekk svo langt að kaupa buxur í þessari stærð nokkrum sinnum. Svo ég þyrfti bara að mjókka. Samt var ég ekki einu sinni með fitulag á mjöðmunum. Mjaðmabeinin mín stóðu út í loftið og voru yfirleitt blá og marin, því ég var alltaf að reka þau í.

Á þessum vinnustað kynntist ég nokkrum af bestu vinum mínum. Tveir þeirra höfðu gengið í gegnum átröskun. Í fyrsta skiptið fannst mér ég geta talað um þetta við einhvern sem skildi. Ég sagðist auðvitað vera hætt öllu þessu rugli, en þau sáu fljótlega í gegnum mig, enda þekktu þau alla taktana sjálf. Allt í einu voru ótal augu á mér í vinnunni. Allir voru að passa mig og mér fannst það óþægilegt. Yfirmaðurinn minn hleraði klósettferðirnar mínar og keypti handa mér croissant áður en hún mætti í vinnuna. ‘Ég vil sjá þig klára þetta og halda því niðri’. Ég var 22 ára og það þurfti að passa mig og segja mér að borða matinn minn.

Á þessum tíma bjó ég ein. Mér fannst það best. Kaffi og kók var það sem hélt mér gangandi. Ég passaði mig á því að skrifa á mig svo mikið af fötum að ég fékk rétt svo útborgað fyrir leigunni og hundamat. Það var svo ‘sniðugt’, því þá átti ég svo lítinn pening að ég gat ekki leyft mér pizzu eða annað þvíumlíkt í mánuðinum.

Þegar ég kom  heim úr vinnunni klukkan 7 fór ég að sofa. Ég varð háð svimanum og hungurtilfinningunni sem kom um það leyti. Þessi tilfinning gerði þetta allt svo mikils virði. Mér fannst svo gott að geta haft stjórn á þessu að ég fór í hálfgerða vímu. Ég sofnaði í þessari vímu og vaknaði svo daginn eftir. Ég hafði einfaldlega ekki orku til að vaka lengur en til 7 og svo var ég ekki svöng á meðan ég svaf. Stundum vaknaði ég reyndar á nóttunni með svo mikla hungurverki að ég gat varla hreyft mig. Þá fékk ég mér vatnsglas og fór aftur að sofa. Ég man að það var dýna á gólfinu heima hjá mér frá því að einhver hafði gist þar. Ég veit ekki af hverju, en mér fannst betra að sofa á henni heldur en í rúminu mínu. Stundum svaf ég í úlpu. Ekki spyrja mig hvers vegna. Ég var farin að gera allskyns skrítna hluti á þessu tímabili sem ég hef enga skýringu á.

B  e  i  k  o  n

Ef ég væri að skrifa bók myndi þar vera heill kafli um love/hate sambandið mitt við beikon. Eruð þið viss um að þetta sé ekki bók?

Ég var alltaf með svör og skýringar á reiðum höndum. Ég var farin að trúa mínum eigin lygum. Ég sagði öllum að mér yrði illt í maganum af því að borða kjöt (í raun og veru borðaði ég það ekki vegna þess að það var svo ‘fitandi’), en síðar varð það sannleikurinn. Líkaminn minn hætti að kunna að melta það, og þegar ég fór heim til mömmu og pabba um jólin endaði ég alltaf mjög veik.

Beikon var djöfullinn. Fyrsta árið sem ég var með Togga sagði ég honum að mér fyndist beikon vont. Löngu eftir að ég náði bata var ég búin að gleyma af hverju ég borðaði ekki beikon. Svona getur maður verið klikkaður. Í dag borða ég beikon fyrir öll árin sem ég sleppti því. Ég elska beikon.

bacon

Einn daginn hætti ég að vinna í fataversluninni og ákvað að flytja til London. Ég bjó reyndar ekki lengi þar, bara í einhverjar vikur eða mánuði. Ég borðaði frosna pizzu 1x á dag og ekkert þess á milli. Ég deildi herbergi með vini mínum og baðherbergi með 4 ókunnugum spánverjum, svo það kom ekki til greina að æla þar. Ég fór að þyngjast. Á meðan ég var úti náði þunglyndið og kvíðinn svo miklum tökum á mér að ég fór ekki út úr húsi. Það endaði með því að ég fór aftur heim. Mamma bókaði flug fyrir mig til Íslands og ég flutti heim til þeirra í fyrsta skiptið síðan ég var 17 ára. Það er mögulega besta ákvörðun sem ég hef tekið. Það var eins og það kviknaði á einhverri ljósaperu hausnum á mér. Ég notaði næstu mánuðina til að vinna í sjálfri mér (æj ég veit… klisjukennt, en þið vitið hvað ég á við!), byrjaði að hlaupa 5-10 km á hverjum morgni, borða hollan mat reglulega og passaði að mér liði vel. Í vor voru 5 ár síðan ég tók sveltiköst eða lét mig kasta upp síðast. Það er kannski ekkert svo langur tími, en mér finnst þessar hugsanir vera svo langt í burtu.

Þrátt fyrir að ég hafi náð góðum bata er sagan aldrei búin. Það er basl að vera heilbrigður. Ég á erfitt með að finna jafnvægi þegar kemur að mat. Þegar ég var upp á mitt versta var ég búin að missa allt sense fyrir því hvort ég væri södd eða svöng. Þegar ég borða veit ég stundum ekki hvort ég er að borða yfir mig eða ekki. Þegar ég er búin að borða fæ ég alltaf ógleðitilfinningu. Stundum heltekur mig líka hugsunin um heilbrigði, mataræði ofl. Um daginn sá ég glitta í sixpack eftir mánaðar æfingasession og ég varð svo upptekin af því að ég ætlaði varla að koma afmælismatnum mínum niður. Í dag er ég með meltingarsjúkdóma/fæðuóþol svoleiðis að ég á í stanslausu basli með mat. Hvað má ég borða? Hversu mikið? Stundum læðist sú hugsun að mér að það væri kannski bara langbest að sleppa því að borða. En áfram held ég og finnst best að taka einn dag í einu.

Ég er fyrst núna að byrja að kaupa mér aðsniðin föt! Ég taldi sjálfri mér trú um að þröng föt færu mér ekki vel, svoleiðis að fataskápurinn minn er fullur af stórum, svörtum kartöflupokum. Planið mitt var alltaf að ‘byrja að kaupa mér þröng föt þegar ég yrði mjó’. Þetta helltist svo aftur yfir mig eftir að ég átti stelpuna mína. Mig langaði ekkert að kaupa föt á meðan ég leit út eins og sprungin blaðra. Ég gerði það samt!

Ég gæti skrifað endalaust um þetta málefni. Ég ætla ekki einu sinni að fara út í öll trikkin og aðferðirnar sem ég notaði, það gerir mig bara sorgmædda að rifja þetta upp og það gerir engum gott að lesa það.

Hvar er svo boðskapurinn í þessari löngu, leiðinlegu sögu?

Ég eiginlega veit það ekki. Ég vildi bara óska þess að ég gæti hitt 14 ára mig og sagt að þetta sé ekki þess virði. Þetta verður bara stór vítahringur og maður verður aldrei ánægður. Þú færð þér ekkert bara anorexíu/búlimíu í nokkrar vikur og hættir svo þegar þú hefur ‘náð árangri’. Ég get ekki kennt neinum að vera ánægður í eigin skinni, en ég get allavega sagt fólki að það græðir ekkert á átröskun. Hormónarugl, meltingarsjúkdómar, tannskemmdir, tíðarstopp, þunglyndi, kvíði eru bara ekki spennandi hlutir. I know this. Átraskanir eru alvarlegir geðsjúksjúkdómar sem geta leitt fólk til dauða. Þetta er hættulegur leikur og ég var bara heppin.

Fólk með átraskanir getur verið í öllum stærðum og gerðum. Ef þið þekkið einhvern sem ykkur grunar að sé með átröskun skuluð þið hvetja viðkomandi til að leita sér faglegrar aðstoðar.

Stofnfundur Vonarstyrks er á fimmtudaginn og ef ég væri ekki búsett úti á landi myndi ég mæta. Þið getið kynnt ykkur málið betur hér og hér.

Kv. Sprungin blaðra í bikini

barcelonaaa

https://instagram.com/birnamaggmua/

https://www.youtube.com/user/birnamagg

One thought on “Um búlimíu, beikon og fleira.

Add yours

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

Blog at WordPress.com.

Up ↑

%d bloggers like this: