Langar ykkur ekki alveg ótrúlega mikið að vita hvaða hluti ég þrái afar heitt þessa stundina?
P.S. Ég verð þrítug eftir rúman mánuð. Hinthint!
Ef þið hafið fylgt mér í einhvern tíma vitið þið kannski að Blood Milk skartið er í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Trúlofunarhringurinn minn er einmitt úr þeirra smiðju, en skartið er handgert eftir pöntunum. Hver einasta lína frá þeim gerir mig svo spennta að það hálfa væri nóg. Núna eru það snákar, köngulær, sporðdrekar og fleira. Er til eitthvað meira ‘ég’?
MYRKA er íslensk hönnun sem heillaði mig upp úr skónum á núlleinni. Fötin eru skemmtileg blanda af streetwear og ævintýralegum prentum, innblásnum úr náttúrunni. Pælingin á bakvið þessa peysu er frábær, en þið getið lesið meira um hana hér.
Nýlega tók ég þá ákvörðun að hætta að kaupa föt og skó úr ekta leðri. Ég verð að viðurkenna að það er ekki úr mörgu að velja lengur. Ég á erfitt með að finna skó sem mér finnst flottir og ég veit að eiga eftir að endast. Current Mood býður samt upp á ágætis úrval af vönduðum vegan skóm og ég er búin að horfa á þessa í nokkrar vikur.
Eitt af mínum stærstu áhugamálum er að safna fallegum hlutum sem hægt er að hengja upp á vegg. Draumahúsið mitt lítur þannig út að það sést ekki í litinn á veggjunum, en ég er ekki viss um að Toggi sé sammála mér.
Ég rakst á ljósmyndarann Marcin Nagraba á instagram um daginn og hreinlega verð að eignast prent af myndunum hans. Myndirnar eru dimmar og ævintýralegar, en hann notar mömmu sína mikið sem fyrirsætu og klæðir hana í fallegustu búninga sem ég hef á ævinni séð. Marcin er ekki með vefverslun, en hægt er að senda honum skilaboð á instagram til að kaupa prent.
Fyrir einhverju síðan komu Seletti lamparnir í sölu hjá Hrím. Apalamparnir eru æðislegir, en þessar litlu mýs heilla mig meira. Mýsnar seldust upp eins og heitar lummur, en mér skilst að það sé von á þeim aftur í bráð.
UPPFÆRT 06.07: Lamparnir eru mættir í hús!
xx
Leave a Reply