Jæja, þá er ég komin úr bloggfríi.
Við Toggi skelltum okkur í fyrsta sumarfríið okkar um síðustu helgi, en tilefnið var gifting góðra vina, Frikka og Davíðs. Katla eyddi helginni hjá uppáhalds fólkinu sínu í Reykjavík á meðan við sváfum í tjaldi í nágrenni Borgarness, eða við félagsheimilið Logaland (stutt frá Hvanneyri). Toggi sá um matinn í veislunni og ég gerði mitt besta við að hjálpa til, en við náðum passlega í partýið, klukkan að ganga 10. Athöfnina vorum við samt að sjálfsögðu viðstödd, með tilheyrandi tárum! Ég átti mjög bágt með að mynda ekki stöðuvatn við tærnar á mér, en minnti sjálfa mig reglulega á að ég hafði eytt klukkutíma í að mála mig inni í bíl. Að vísu lak þetta svo allt hvort sem er af andlitinu á mér inni í eldhúsinu 3 klst seinna.
Þessi stund er alveg á topp 10 yfir þær fallegustu sem ég hef upplifað og ég óska vinum mínum enn og aftur til hamingju með hvorn annan. Það var virkilega gaman að fá að vera partur af þessu öllu. Fallegur dagur með fallegu fólki á fallegum stað ❤
Ég ætla að leyfa myndunum að sjá um restina, svona áður en ég fer aftur að grenja.




Leave a Reply