Bjútímistök!

Allir sem nota húð- og förðunarvörur hafa gerst sekir um að nota þær einhverntíman á vitlausan hátt eða gera eitthvað sem getur haft óskemmtilegar afleiðingar í för með sér. Ég ætla að telja upp nokkur algeng atriði sem fólk feilar á. Ég er örugglega að gleyma fullt af mikilvægum hlutum, en þetta er það sem kom fyrst upp í hausinn á mér. Sumt af þessu er líka svolítið common sense, en eitthvað sem maður áttaði sig ekki á þegar maður var yngri. Annað er kannski álitamál og ykkur er frjálst að hafa skoðanir og deila þeim.

rbk-10-beauty-mistakes-intro-lgn

*Að þrífa ekki farðann af sér fyrir svefninn. Þetta er það allra mikilvægasta þegar kemur að því að nota farða. Hann á ekki að vera þarna í sólarhring eða meira. Hann er ekki til þess gerður. Hvort sem það er augnfarði, ‘bara’ hyljari eða maskari. Þú stíflar svitaholurnar og ert bókstaflega að bjóða í bólupartý. Sviti og óhreinindi safnast í koddaverið og , let’s face it, það skiptir enginn um koddaver á hverjum degi. Sá hinn sami má þá gefa sig fram. Þetta verður síðan eitt stórt, ókeypis bakteríufestival sem þú heldur áfram að mæta á næstu kvöld. Ef þú hristir hausinn og segist aldrei fá bólur, þá geturðu hætt því núna, vegna þess að þetta hraðar líka öldrun húðarinnar. Hvað maskara varðar getur hann brotið augnhárin og leyfar af honum geta farið inn í augun og valdið augnsýkingu.

*Að kreista bólur. Þetta er amk eitthvað sem snyrtifræðingur ætti bara að gera að mínu mati. Þú ert að gera illt verra. Ummerki bólunnar hverfa síður, roðinn situr lengur eftir og þú getur búið til holu/ör. Fyrir utan það að  þú getur sýkt svæðið í kring og frænka bólunnar gæti poppað upp í hefndarskyni, 3mm frá henni. Ég veit að fullt af fólki gerir þetta og er ennþá lifandi, en allur er varinn góður. Stundum fer óþolinmæðin alveg með mann.

*Ekki gleyma hálsinum! Þegar þú berð á þig rakakrem ættirðu alltaf að setja það á hálsinn líka. Húðin á hálsinum er líkari húðinni í andlitinu heldur en á líkamanum, en verður oft útundan vegna þess að fólk áttar sig ekki á því. Þú ættir alltaf að bera rakakremið á þig í strokum upp, í átt að andlitinu. Það sama á við um sólarvörn!

*Að þrífa ekki farðabursta. Ég get ekki sagt þetta of oft. Farðaburstarnir verða að fá sitt bað. Ef þeir gera það ekki skemmast þeir fyrr, vegna þess að óhreinindi, farði og olía safnast í þá og búa til himnu utan á hárin. Ásetningin á farðanum á eftir að verða mikið ójafnari og hárin á þeim byrja að detta fyrr, vegna þess að þau verða svo stíf. En það sem mestu máli skiptir eru óhreinindin sem fylgja þessu. Svampar og burstar fyrir púður og fljótandi farða verða alveg stórkostlega skítugir og helst þyrfti að þrífa þá eftir hverja notkun. Augnskuggaburstar sleppa kannski fyrir horn, en þurfa samt reglulegt bað. Burstar sem fara í blautan eyeliner eru bakteríuloverar og þá myndi ég þrífa eftir hverja notkun líka. Þetta hljómar alveg ótrúlega boring og þú hefur ekki tíma í svona lagað, en kommon. Þetta þarf ekki að taka lengri tíma en 20 sekúndur og svo eru verkfærin orðin þurr fyrir næstu notkun.

*Að gefa rakakreminu ekki sinn tíma. Það er ekki sniðugt að klessa farða/primer á sig í beinu framhaldi af rakakreminu, vegna þess að það á eftir að ganga almennilega inn í húðina. Það sama gildir með serum. Ég bíð alltaf með að setja rakakrem á mig í smá stund eftirá. Ef þú gerir þetta ekki ertu í raun og veru að blanda þessu öllu saman og útkoman verður ójafn farði með stutta endingu.

*Að vera drullusama um sólarvörn. Þér á ekki að vera drullusama um sólarvörn. Í framtíðinni á þér ekki eftir að vera drullusama. Þú átt eftir að bölva í hljóði og óska þess að þú hefðir notað hana þegar þú hafðir ennþá tækifæri á að koma í veg fyrir að líta út eins og sveskja.

*Að sleppa því að nota rakakrem á olíumikla húð. Ég hef svo oft heyrt stelpur segja að þær þurfi ekki rakakrem vegna þess að þær séu ekki með þurra húð, heldur feita. Það eru til olíulaus rakakrem krakkar! Það sem meira er, ef þú sveltir húðina af raka þá fer hún að framleiða umframmagn af olíu, sem veldur bólumyndum og svoleiðis fíneríi. Svoleiðis að það eitt og sér að nota ekki rakakrem getur verið ástæðan fyrir því að þú ert með svona feita húð.

*Að nota fljótandi farða til að dekkja húðina. Nei, plís, ekki. Fljótandi farði er ekki til þess gerður. Hann er gerður til þess að jafna út ÞINN húðlit, ekki koma þér úr 001 sand yfir í 012 golden mocha. Kyngdu stoltinu, settu á þig 001 sand og notaðu svo sólarpúður til að fríska upp á andlitið ef þér finnst þú vera eins og draugur. Það er ekkert verra heldur en að sjá manneskju sem lítur út fyrir að hafa dýft andlitinu ofan í sósupott áður en hún fór að heiman. Svo eru til allskyns brúnkurem og gel til að fríska upp á svona glært fólk. Ég veit það vegna þess að ég er glært fólk.

*Að blotta ekki með tissjúi fyrst. Ókei, blot púður er ein sú mesta snilld sem til er, en blot klútar eru ennþá meiri snilld! Ef þú ætlar að fjarlægja óæskilega olíu úr andlitinu á þér með því að púðra yfir hana, þá ertu eitthvað að misskilja. Þú ættir að byrja á því að dúmpa létt yfir húðina með pappír, og ef þú átt ekki blot klúta, þá er venjulegt tissjú betra en ekkert. Ef þú gerir þetta ekki ertu að bæta endalausri olíu í burstann/svampinn þinn og svo á púðrið sjálft, sem gerir það að verkum að það myndast skán á púðrið þitt. Aha! Hafðiru einhverntíman spáð í því af hverju hún er þarna? Mjög líklega uppsöfnuð olía. Mann langar ekkert sérstaklega að setja mánaðargamalt samansafn af olíu í andlitið á sér.

Ég gæti svosem haldið endalaust áfram og farið út í mín persónulegu mistök. Ég myndi deila myndum af 13-16 ára gömlu mér ef ég ætti þær. Þessi ár einkenndust af brúnkuklútum í bland við óhóflega ljósabekkjanotkun með ósjáanlegum árangri, garnier fructis sjampói, óblönduðum augnskugga, hvítum eyeliner og bólufelara í vitlausum lit.

xx

Leave a Reply

Create a free website or blog at WordPress.com.

Up ↑