Þessa dagana er ég að prófa allskonar vörur (flestar nýjar/nýlegar á íslenskum markaði) og hlakka til að segja ykkur betur frá þeim. Það er hins vegar eitt nýtt merki á Íslandi sem ég hef verið að grípa í í nokkur ár og hef þar af leiðandi góða reynslu af nú þegar. Þetta eru Crazy Colors, hárskol í öllum litum sem eru nýfarin að fást í Hagkaup (allavega í Smáralind!) og Kjólar & konfekt. Ég tek því fagnandi að þurfa ekki að panta litina af Amazon lengur! Ég ætla að byrja á því að taka það fram að ég er ekki hárgreiðslukona (augljóslega.. hafið þið séð slitnu endana mína?), en ég ætla að segja ykkur frá því hvernig ég nota þessa liti og hverju ég hef komist að í þessi 5 ár sem ég hef verið að leika mér með pastelliti. Ég fæ mjög oft spurningar um hárið á mér og þetta ætti svona nokkurn veginn að svara þeim 🙂
Crazy Colors eru ‘semi-permanent’ litir og fara þar af leiðandi úr hárinu á nokkrum vikum undir venjulegum kringumstæðum. Það fer þó allt eftir ástandi hársins og hvaða litir eru notaðir hversu langur endingartíminn er. Ég hef alltaf verið hrifnust af pastellitum og því passa ég að hárið á mér sé alveg hvítt (eins hvítt og það getur orðið) undir litnum fyrir bestu útkomuna. Ég er með rauðan undirtón í hárinu og þar af leiðandi er frekar erfitt fyrir mig að ná því hvítu án þess að það skemmist. Það er yfirleitt gul slikja á því eftir aflitun og þá þarf ég að tóna það eða nota blátt sjampó.
Þegar ég rakst á litina í Hagkaup um daginn datt mér í hug að leiðrétta gula tóninn í hárinu á mér með einum litanna, en ég hafði ekki gert það áður með lit frá þessu merki. Ég tók litinn platinum, sem á að vera einskonar tóner. Þið sjáið gulu slikjuna á hárinu á mér fyrir á vinstri myndinni og á hægri myndinni er ég búin að tóna það. Ég notaði ekki allan brúsann, heldur blandaði ég helmingnum af honum út í djúpnæringuna mína og lét hann bíða í svona 20 mín í blautu hári. Hárið hefði sennilega orðið ennþá hvítara ef ég hefði ekki blandað litinn. Ég er mjög sátt með útkomuna! Tónerinn er góður grunnur fyrir næsta skref. Þessa dagana er ég að rokka á milli pastelbleikra og grárra lita, en mér datt í hug að lita það blátt um daginn og greip þá ‘bubblegum blue’.
Þegar ég er að leika mér með svona pastelliti finnst mér best að blanda þá út í hvíta hárnæringu þangað til þeir eru orðnir á litinn eins og ég vil hafa hárið. Mér skilst að frá merkinu sé hægt að fá ‘Neutraliser’ sem er notaður á sama hátt. Þegar ég er að nota nýjan lit prófa ég alltaf á einum lokk og skola úr áður en ég set litinn í allt árið. Þarna setti ég smávegis af bubblegum blue í hárnæringuna, bar það í blautan hárlokk, lét bíða í 15 mín og skolaði úr. Ég beilaði reyndar á þessum lit (ég held að ég hafi ætlað að taka sky blue, þessi er aðeins meira grænblár!) og skellti í það bleikum lit. Bleika litinn átti ég frá Crazy color og hef notað oft áður. Ég hef notað tvo bleika liti frá þeim, en þessi heitir candy floss.
Svona lítur Candy floss út í mínu hári þegar ég er nýbúin að lita það og svo dofnar hann pínulítið með hverjum þvotti. Mér finnst mjög þægilegt að þeir skolist úr á nokkrum vikum, því mér finnst hann alltaf fallegur á meðan hann er að dofna og ég verð fljótt leið á svona hárlitum.
Hann er nokkurn veginn svona í augnablikinu (sorrí með pósurnar, ég er alltaf svo mikill póser á makeup instagramminu mínu!). Það er erfitt að segja hversu lengi litirnir tolla í. Það fer eftir því hvaða litur er valinn, hversu oft þú notar sjampó, hvort þú ert mikið í sól, hvernig hárið tekur við litnum osfrv. Ég held mínum litum yfirleitt við með því að lita á c.a. 10 daga fresti. Litir eins og þessir eru frekar meinlausir, sérstaklega þegar lítið magn af þeim er sett út í hárnæringu.
Nokkrir punktar sem ágætt er að hafa á bakvið eyrað:
*Litir af þessu tagi eru aldrei eins í hárinu og utan á flöskunni nema það sé snjóhvítt á litinn. Það segir sig sjálft að þegar þú litar með bleikum tússlit á svart blað færðu ekki pastelbleikan lit. Það er gott að hugsa þetta svona. Litirnir geta samt sem áður komið fallega út í dekkra hári. Rauður og dökkfjólublár sjást t.d. oft í dökku hári og pastellitir njóta sín líka oft í dekkra hári en hvítu.
*Gult hár + blár litur = grænt. Gott er að notast við litafræði!
*Skærir og dökkir litir geta skilið eftir slikju í hárinu sem næst ekki auðveldlega úr. Sérstaklega ef hárið er litað oft með sama litnum og er mjög mikið aflitað undir. Ég hef lent í því að vera grænhærð í 2 mánuði eftir ‘build up’ af fjólubláum lit og endað með því að lita það dökkt.
*Það er auðveldara að bera litinn í blautt hár (handklæðaþurrt), þá dreifist betur úr honum.
*Það er best að prófa alltaf litinn í einum lokk fyrst. Ég tek yfirleitt lokk undir hárinu, þar sem hann sést ekki eins vel ef illa fer.
*Ef rótin er öðruvísi á litinn en restin af hárinu verður liturinn að sjálfsögðu ekki eins þar.
*Til að litirnir endist betur í hárinu er sniðugt að þvo það sjaldnar með sjampói og þá kemur þurrsjampó að góðum notum.
*Þar af leiðandi er hægt að þvo það oftar til þess að liturinn dofni hraðar. Ég mæli samt ekki með því að of-þvo það, því það getur þurrkað hárið.
*Það er langbest að leita til fagfólks ef liturinn næst ekki úr. Heimatilbúnar aðferðir geta gert illt verra.
*Ekki aflita í drasl! Ég tala af reynslu. Hárið á mér hefur nokkrum sinnum brotnað. Það er ekki kúl að vera með topp í hliðinni á hárinu. Það er langsniðugast að láta lýsa það hægt og rólega á stofu og fara svo og láta lýsa rótina reglulega.
Ekki vera hrædd við að lita hárið í flippuðum litum! Ef rétt er farið að getur útkoman orðið fabjúlös!
xx
Facebook – https://www.facebook.com/birnamaggcom
Youtube – https://www.youtube.com/user/birnamagg
Instagram – @birnamaggmua
Hefurðu notað neutral litinn? Ætlaði að kaupa platinum en hann var ekki til..bara neutral sem á að vera alveg hvítur. Ég fæ líka svona gulan lit í hárið eftir aflitun og er að pæla hvort ég eigi að prófa neutral litinn..
LikeLike