Þar sem ég nota andlitsfarða á hverjum degi skipta nokkrir hlutir mig miklu máli þegar kemur að valinu á hinum rétta. Fyrst og fremst vil ég að farðinn sé frekar þekjandi, haldist lengi á og geri húðina mína áferðarfallega. Ekki skemmir fyrir ef hann kostar ekki hálfan handlegg og nýra, en ég nota yfirleitt farða í ódýrari kantinum dagsdaglega og þessa dýrari sem spari.
Ódýrari farðinn sem ég hef mikið notað er Maybelline SuperStay farðinn, þessi gamli og góði, en hann hefur reynst minni olíumiklu og rauðu húð mjög vel. Ég var því spennt að prófa SuperStay Better Skin þegar hann kom til landsins.
Farðinn er frekar þykkur, mjög þekjandi og tollir vel og lengi á. Ég ber hann á með farðabursta, en ef ég vil meiri þekju nota ég Real Techniques svampinn góða. Hyljarinn í línunni er löngu orðinn uppáhalds budget hyljarinn minn, en ég er á þriðju túpunni. Hann er mjög fljótandi (er hægt að segja mjög fljótandi? ég sagði það allavega), auðveldur í ásetningu og þekur vel.
Better skin á að vinna í áferð húðarinnar þegar við notum hann. Hann á að draga úr roða, ójöfnum og þreytumerkjum í húðinni. Ég er ekki frá því að þetta sé rétt, en það er kannski ekkert að marka mig, þar sem ég er alltaf að prófa nýjar og nýjar húðvörur sem eiga að bæta ástandið. Farðinn er góður út af fyrir sig, hyljarinn líka, og þá er ég sátt.
Það mætti halda að ég væri komin með eitthvað æði fyrir því að birta myndir af mér án farða, en það er alls ekki það skemmtilegasta sem ég geri. Hér er vinstri helmingurinn farðalaus og á hægri helmingnum eru bæði farðinn og hyljarinn. Ég notaði ekki primer í þetta skiptið, til að sýna réttu áferðina, og svo púðraði ég létt yfir með litlausu púðri. Ég myndi segja að hann hefði um 9 klst endingu, en þá er ég farin að glansa í gegn og farðinn byrjaður að nuddast af meðfram nefinu.
Hér er ég svo komin með fullt fés, en fyrir forvitna er ég með Maybelline color sensational lip liner í velvet beige á vörunum. Hef talað áður um þennan liner, en hann er einn af ástunum í lífi mínu.
xx
Leave a Reply