Ég fékk á dögunum nokkrar nýjungar sendar til að prófa og mig langar til að deila með ykkur tveimur í dag. Annað er vara fyrir augabrúnir og hitt er varalitur.
Brow artist plumper er ný vara frá L’Oréal, en þetta er einskonar trefjamaskari fyrir augabrúnir. Hann á að lita hárin, gefa þeim fyllingu og halda þeim á sínum stað.
Á fyrstu myndinni er ég með mínar stórfenglegu, æðislegu, hálfu augabrúnir, en á næstu mynd er ég búin að búa til ‘enda’ aftan á þær með blýtanti. Ég mótaði þær ekkert meira í þetta skiptið, en svo burstaði ég brow artist plumper í gegnum þær. Ég gerði þetta í stuttum hreyfingum upp á við, eiginlega eins og ég væri að maskara á mér augnhárin, og svo burstaði ég hárin í rétta átt. Ég passaði mig að fara ekki með burstann í húðina.
Eins og sjá má eru augabrúnirnar mikið fyllri heldur en á fyrstu myndinni og örlítið dekkri líka, en liturinn sem ég notaði var medium/dark og hann hentar mér mjög vel. Formúlan þornar ekki of hratt og þegar hún er orðin þurr haggast hárin ekki. Augabrúnarútínan mín er yfirleitt frekar tímafrek, en ég sé fram á að nota þennan mikið svona dagsdaglega. Fyllri augabrúnir á skotstundu er bara tilboð sem ég get ekki hafnað.
Þarna er ég ýkt væmin og kát með að vera komin með augabrúnir, en á vörunum er ég síðan með Color drama frá Maybelline í litnum ‘fuchsia desire’, sem mig langar að segja ykkur frá næst.
Ég er mjög hrifin af varalitum í blýantsformi og þessi er engin undantekning. Hann er mjúkur og þægilegur í ásetningu, áferðin er fallega mött og hann tollir mjög vel á. Fuchsia er litur sem ég kaupi örsjaldan, en þessi er mjög þægilega bleikur. Má segja þægilega bleikur? Ég sagði það.
Color drama blýantarnir eru til í nokkrum litum, en ég á hiklaust eftir að næla mér í fleiri. Berry much og Nude perfection eru á innkaupalistanum.
xx